Bók & sjónvarpsþættir
Fé framundan

Rannsóknir

 

Einn af hornsteinum Stofnunar um fjármálalæsi eru rannsóknir þar sem höfuðáhersla er lögð á að allt starf stofnunarinnar sé byggt á gögnum. Stofnun um fjármálalæsi hefur frumkvæði að og umsjón með rannsóknum sem tengjast fjármálalæsi, bæði hér á landi og í samstarfi við erlenda aðila. Frá árinu 2008 hefur Stofnunin staðið fyrir rannsóknum á fjármálalæsi Íslendinga þriðja hvert ár. Hér fyrir neðan getur að líta helstu niðurstöður þeirra. Með því að senda tölvupóst á fe (hjá) fe.is má fá skýrslur sem unnar hafa verið uppúr rannsóknunum.

 

Meðal helstu niðurstaðna í rannsókn á fjármálalæsi Íslendinga 2014:

- Íslendingar skora hærra en áður í öllum þremur þáttum fjármálalæsis; þekkingu, viðhorfum og hegðun.

- Meðaltal réttra svara í þekkingahlutanum er 67% nú, en var 47% árið 2011 og 53% árið 2008.

- Nærri tvöfalt fleiri halda heimilisbókhald nú en 2011 (30% en var 16%), en heimilisbókhald er einmitt vísbending um góða stjórnun á eigin fjármálum.

- Jafnmargir höfðu tekið lán til að ná endum saman síðastliðna 12 mánuði og í síðustu rannsókn eða fjórðungur. Meðaltal OECD var hins vegar innan við fimmtungur árið 2012.

- Fjármálalæsi þeirra einstaklinga sem fylgst var með yfir tímabilið 2011 og 2014 breyttist ekki. Hins vegar er nokkuð stór hópur sem svarar á annan hátt nú en í fyrri rannsókn.

- Ekki er samband milli þekkingar og hegðunar í fjármálum.

- Nokkuð jákvætt samband er milli viðhorfa og hegðunar í fjármálum, eða r = 0,26, p < 0,01.  Því jákvæðari viðhorf þátttakenda, þeim mun jákvæðari hegðun sýndu þeir

Rannsókn á fjármálalæsi Íslendinga 2011

Fjármálalæsi Íslendinga hrakar samkvæmt samanburðarrannsókn þar sem þekking, viðhorf og hegðun Íslendinga í fjármálum var rannsökuð og borin saman við rannsókn Stofnunar um fjármálalæsi frá 2008.

Meðal helstu niðurstaðna:
- Þekkingu hrakar milli ára, af sömu spurningum voru 53% rétt svör árið 2008 en 47% árið 2011.
- Færri halda heimilisbókhald nú en áður, en heimilisbókhald er einmitt vísbending um góða stjórnun á eigin fjármálum.
- Tuttugu prósent færri nýta yfirdrátt og hann er að meðaltali þriðjungi lægri.
- Fimmtánoghálft prósent ná ekki endum saman þriðja hvern mánuð eða oftar.
- Jafnmargir hafa miklar áhyggjur af fjármálum sínum og áður.
- Tæplega helmingur þátttakenda vill ekki taka áhættu þegar kemur að sparnaði.

Þekkingu hrakar
Þátttakendur árið 2011 voru spurðir 19 spurninga sem reyndu á almenna þekkingu á fjármálum. Meðaltal réttra svara var 11,2 af 19 mögulegum, eða 59%. Miðgildi réttra svara var 12.
Tekjur, menntun, kyn og aldur hafa sjálfstætt forspárgildi um frammistöðu þátttakenda á þekkingarhluta rannsóknarinnar. Hærri tekjur og meiri menntun spá sterkast fyrir um góða frammistöðu. Þá reynast karlar standa sig betur en konur og. Yngri (18 – 30 ára) og eldri svarendur (58 – 80 ára) skora marktækt lægra en þeir sem eru á miðjum aldri (31 – 57 ára).
Þegar þær 11 spurningar sem reyndu á almenna þekkingu og eru samaburðarhæfar milli ára eru skoðaðar, kemur í ljós að þekkingu hefur hrakað. Þannig var meðalskorið 2008 53% en 47% árið 2011 og er munurinn marktækur.

Ná ekki endum saman
Tæplega 39% aðspurðra segjast ekki hafa náð endum saman einu sinni eða oftar síðastliðna 12 mánuði, þó að 76% segist alltaf borga reikninga á réttum tíma.
Samtals náðu 15,5% þátttakenda ekki endum saman 4 sinnum eða oftar síðastliðna 12 mánuði og rúmlega  5% þátttakenda náðu aldrei endum saman. Þeir sem ekki náðu endum saman sögðust flestir hafa lent tvisvar í því undanfarna 12 mánuði, en meðaltalið var rúmlega 4 sinnum. Einhleypir lentu oftar í þessum aðstæðum að meðaltali heldur en einstaklingar í sambúð og þá sérstaklega einhleypar konur eða sex sinnum að meðaltali á síðastliðnum 12 mánuðum, einhleypir karlar fimm sinnum en einstaklingar í sambúð þrisvar sinnum.
Ekki var spurt um þetta árið 2008.

Heimilisbókhald
Þeim sem halda heimilisbókhald hefur fækkað til muna frá árinu 2008 eða úr 37,3% í 24,1%. Þá nýta marktækt færri sér yfirdráttarheimild í banka árið 2011 (29%) en árið 2008 (37,2%) og var meðalupphæð yfirdráttar jafnframt jafnframt marktækt lægri eða 275.000 kr. í stað 399.000 kr. áður.

Viðhorf
Ekki er marktækur munur á áhyggjum þátttakenda af eigin fjármálum á milli kannanna, en 24% hafa miklar áhyggjur, en þeir voru 22,5% áður. Þátttakendur nú telja sig hafa meiri þekkingu á fjármálum almennt en árið 2008 en munurinn reyndist ekki marktækur.

Stór hluti þátttakenda virðist alls ekki reiðubúinn að taka áhættu þegar kemur að sparnaði og fjárfestingum en 46% var voru algerlega ósammála fullyrðingunni „Ég er reiðubúin/n að taka nokkra áhættu þegar kemur að sparnaði og fjárfestingum“. Flestir gera sér jafnframt grein fyrir að fjárfesting sem veitir háa ávöxtun er líklega áhættusöm eða næstum 85% þátttakenda. Einnig gera flestir sér grein fyrir því að meiri líkur séu á að tapa hárri upphæð á fjárfestingarkosti sem býður upp á mikinn gróða eða 86% þátttakanda.

Um rannsóknina
Tekið var tilviljunarúrtak 852 Íslendinga á aldrinum 18 til 80 ára og var svarhlutfall 65%. Góð dreifing er milli kynja og búsetu. Gagnaöflun fór fram í gegnum síma dagana 2.-16. desember 2011.
Spurningalistinn samanstóð af 56 spurningum; Níu spurningum um viðhorf til fjármála, 18 spurningum um fjármálahegðun, 20 spurningum sem reyndu á almenna þekkingu á fjármálum og 9 bakgrunnsbreytum.  Átján spurningar eru samanburðarhæfar milli ára;  tvær um viðhorf til fjármála, 5 um fjármálahegðun og 11 spurningar um almenna þekkingu á fjármálum.


Skýrslan er unnin af Stofnun um fjármálalæsi og sálfræðisviði viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík og er styrkt af Arion banka, efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og Íbúðalánasjóði.

 

Rannsókn á fjármálalæsi Íslendinga 2008

Könnunin náði til 966 manna tilviljunarúrtaks Íslendinga á aldrinum 18-80 ára. Gagnaöflun fór fram í gegnum síma 5.-15. desember árið 2008. Svörun var 65%. Spurt um þekkingu, hegðun og viðhorf til fjármála auk bakgrunnsspurninga.

Úr niðurstöðum

Meðaleinkunn þátttakenda  í þekkingarhluta könnunarinnar var 4,28 á skalanum 0-10. Helstu niðurstöður sýna að á 38% heimila er haldið heimilisbókhald. Um tveir af hverjum þremur leggja fyrir í séreignarlífeyrissparnað. Fjórir af hverjum fimm voru að greiða af láni af einhverju tagi. Hæsti yfidráttur einstaklings nam 3,8 milljónum króna. Rúmlega helmingur aðspurðra hafði áhyggjur af fjármálum sínum og rúmlega 2 af hverjum fimm vildi fá ítarlegri fræðslu í fjármálum.

Einungis tíundi hver gerði sér grein fyrir rekstrarkostnaði bifreiðar.

Menntun, tekjur, kyn og hjúskaparstaða sýndi sig að hafa marktæk áhrif á fjármálalæsi þátttakenda.

 

Rannsókn á fjármálalæsi íslenskra
framhaldsskólanema 2005

Rannsóknin var gerð vorið 2005 og náði til 658 átján ára nemenda úr 15 íslenskum framhaldsskólum. Spurningarnar voru samdar með tilliti til þess fjármálalæsis sem 18 ára unglingur ætti að búa yfir samkvæmt kröfum og skyldum sem þjóðfélagið leggur á herðar þeim. Rannsóknin var unnin sem lokaverkefni BSc náms í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík vorið 2005 og fékk 9,5 í einkunn.

Úr niðurstöðum:

Niðurstöður rannsóknarinnar benda sterklega til þess að framhaldsskólanemendur séu ekki vel að sér í fjármálum. Þrátt fyrir slaka frammistöðu hafði tæpur helmingur aðspurðra frekar mikinn eða mjög mikinn áhuga á frekari fræðslu um fjármál.

Þeir sem unnu mest með námi voru betur læsir á fjármál en þeir sem unnu minna eða ekki neitt. Þá reyndust karlar almennt vera betur læsir á fjármál en konur. Marktækur munur var á þekkingu nemenda á einstökum þáttum fjármála eftir því hver aðalviðskiptabanki þeirra var og var einnig marktæk jákvæð fylgni milli menntunar föður og fjármálalæsis ungmennis.