Áftur á forsíðu:
 

Um Aflatún

Aflatún er sérþróað námsefni fyrir börn og unglinga í fjármálalæsi, samfélagsábyrgð og frumkvöðlastarfsemi. Þróun Aflatún námsefnisins hófst á Indlandi fyrir nær 20 árum þegar leitast var við að veita börnum, sem oft bjuggu við erfiðar félagslegar aðstæður, grunnþekkingu í fjármálum og á sama tíma upplýsa þau um réttindi sín og skyldur. Námsefnið náði til rúmlega 1,1 milljón barna í tæplega 80 löndum um mitt ár 2012 en stefnan er sett á að ná til 10 milljón barna í 120 löndum árið 2015.

Aflatún námsefnið byggir á þeirri hugmyndafræði að börn séu fær um að breyta eigin lífi til hins betra og hafa góð áhrif á samfélag sitt. Börn eru talsmenn framtíðarinnar og geta verið hreyfiafl félagslegra og fjárhagslegra breytinga. Til þess að börn séu fær um að nýta þessa krafta sína er grundvallaratriði að þau þekki réttindi sín og skyldur og að þau viti hvert og hvernig þau eiga að sækja réttindi sín.

Námsefni Aflatún er Íslendingum að kostnaðarlausu, í boði hollensku góðgerðarsamtakanna Child Savings International. Einungis þarf að kosta þýðingar, staðfæringu og útgáfu.

 

Markmið

Í stuttu máli má segja að markmið Aflatún námsefnisins sé tvenns konar. Annars vegar að fræða nemendur um réttindi sín og skyldur, meðal annars eins og þau eru skilgreind samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hins vegar að auka þekkingu þeirra á mikilvægi þess að leggja reglulega fyrir, skipuleggja sig til að ná markmiðum (fjárhagslegum sem öðrum) og fara vel með öll verðmæti og auðlindir, sama hvers eðlis þau eru.

Námsefnið miðar einnig að því að auka sjálfstraust nemenda og sannfæra þá um að þeir geti valdið straumhvörfum í lífi sínu og samfélagi. Það eina sem þurfi sé grunnþekking á umhverfinu og samfélaginu, hæfni til að skipuleggja sig og vinna saman, jákvætt viðhorf til virkrar þátttöku og vilji til að framkvæma. Lögð er áhersla á að nemendur séu sjálfstæðir einstaklingar sem jafnframt séu hluti af samfélagi og að kraftar þeirra geti skipt sköpum  sem hreyfiafl jákvæðra breytinga.


Kennsluaðferðir

Nemendur eru ávallt miðpunktur kennslunnar (e. child-centered learning) og eru hvattir til þátttöku með leikjum, lifandi umræðum og skapandi athöfnum og verkefnum. Nemendur eiga fyrst og fremst að læra í verki og með því að rannsaka, athuga og framkvæma sjálfir og þannig eignast eins stóra hlutdeild í náminu og námsferlinu og mögulegt er.


Hvað er nýtt í Aflatún?

Með Aflatún er aukið á flóru náms- og fræðsluefnis fyrir íslensk börn með því að draga fram í sviðsljósið viðfangsefni sem lítið hefur borið á áður. Þó ber ekki að líta svo á að með Aflatún komi fram á sjónarsviðið ný námsgrein heldur frekar að viðfangsefni þess, þ.e. að fjármál og réttindi og skyldur barna eigi heima innan um og meðal annara námsgreina.

Sparnaður, peningar, fjármál, fjárhagsleg áætlanagerð og fjármálalæsi eru viðfangsefni sem koma lítið sem ekkert við sögu í kennsluefni fyrir börn á aldrinum 6-14 ára. Aflatún byrjar að kenna um sparnað og fjármál við 6 ára aldur. Sparnaður er hér kynntur til sögunnar sem skynsamlegur og eðlilegur kostur fyrir alla. Sparnaður í námsefni Aflatún er ekki bara peningalegur sparnaður heldur einnig örugg varðveisla og góð umgengi við önnur verðmæti (einnig tilfinningaleg), náttúruauðlindir og önnur gæði. Hvað varðar hinn peningalega sparnað er áherslan á reglulegan sparnað og að fá nemendur til að þróa með sér skynsaman vana: að leggja fyrir reglulega. Áherslan er aldrei á magnið, nema í því samhengi að eyða ekki um efni fram og spara meira en tekið er út þegar til lengri tíma er litið.

Aflatún leggur áherslu á upplýsta og jákvæða umræðu um menningarlegan fjölbreytileika í samfélögum nútímans og miðlar því með ýmsu móti í námsefninu.

Aflatún námsefnið er þróað beinlínis á grundvelli þess að börn geti valdið straumhvörfum í eigin lífi og verið hreyfiafl félagslegra breytinga í samfélagi sínu.


Aflatún samfélagið

Eitt af því sem gerir Aflatún heillandi er að nemendur og leiðbeinendur þeirra verða hluti af alþjóðlegu samfélagi sem hefur göfug markmið að leiðarljósi. Möguleikar standa því til boða að verða virkir þátttakendur í Aflatún samfélaginu og leggja sitt af mörkum við að þróa Aflatún enn frekar. Þetta býður einnig upp á marga möguleika við þróun verkefna og samskipti við bekki erlendis auk þróunar kennsluaðferða og hugmynda í samstarfi við erlenda skóla eða bekki. Aflatún leggur einnig áherslu á að námsefnið varpi ljósi á mismunandi aðstæður barna um allan heim og því væri hægt er nýta alþjóðlega útbreiðslu Aflatún til að ná fram þessum þætti námsefnisins.


Aflatún á Íslandi

Útgefandi og tengiliður Aflatún á Íslandi er Stofnun um fjármálalæsi (www.fe.is).

Útgáfa Aflatún á íslensku var styrkt af Þróunarsjóði námsgagna 2012.