Áftur á forsíðu:
 

Fimm grunnþættir Aflatún námsefnisins

Grunnhugsun Aflatún námsefnisins er að börn um allan heim geti breytt lífi sínu, verið hreyfiafl samfélagslegra breytinga og stuðlað að auknu jafnrétti í heiminum. Námsefnið er fjölbreytt og viðfangsefnin eru mörg. Grunnþættirnir fimm hér að neðan mynda kjarnann í námsefninu og eru leiðandi stef í öllu útgefnu fræðsluefni á vegum Aflatún.

 

1. Persónulegur skilningur og athugun: Nemendur öðlist trú á eigin getu og fyllist sjálfstrausti. Nemendur læri að hvert og eitt þeirra skiptir máli og að allir geti stuðlað að breytingum. Í þessu felst meðal annars kennsla í almennu siðferði, tillitsemi og kurteisi. Áhersla er á sjálfstæða hugsun og athugun nemenda, þeir kanni heiminn og samfélagið á eigin forsendum, dragi ályktanir og breyti í kjölfarið hátterni sínu til hins betra fyrir sig, samfélagið og heiminn.

 

2. Réttindi og skyldur: Nemendur öðlist þekkingu og skilning á réttindum sínum og skyldum og að þetta eru í raun tvær hliðar á sama peningi. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna varðar hér veginn en hann útlistar fjögur gagnvirk réttindi barna: réttinn til lífsafkomu, verndar, þroska og þátttöku. Nemendur öðlist skilning á skyldum sem þau bera gagnvart sjálfum sér, fjölskyldum sínum, umhverfi og samfélagi.

 

3. Sparnaður og útgjöld: Nemendur hugsi um sparnað sem eðlilegan og skynsaman kost fyrir sig. Sparnaður hefur hér þríþætta merkingu: (a) peningalegur sparnaður, þ.e. nemendur tileinki sér þann vana að leggja fyrir reglulega, (b) nemendur leiði hugann að nýtingu auðlinda og fari sparlega með þær og öll samgæði samfélagsins (í þessu felst bæði beinn og óbeinn fjárhagslegur sparnaður) og (c) nemendur hugsi vel um og gæti annarra verðmæta sinna, t.d. þeirra sem hafa tilfinningalegt gildi fyrir þá. Að lokum er lögð áhersla á að nemendur hugsi á upplýstan og skynsaman hátt um útgjöld sín, skipuleggi þau og eyði ekki um efni fram.

 

4. Skipulagning og fjárhagsleg áætlanagerð: Nemendur læri að hugsa um fjármál og sparnað með tilliti til framtíðar, öðlist færni til að setja sér markmið og þekki leiðir til að ná þeim. Markmiðasetning, upplýst ákvarðanataka, eftirfylgni og framtíðarsýn eru mikilvæg jafnt í fjármálum sem öðrum þáttum í lífi okkar.

 

5. Samfélagslegt eða fjárhagslegt verkefni: Nemendur skipuleggi og beri sameiginlega ábyrgð á verkefni með það fyrir augum að „skila til baka til samfélagsins“. Í þróunarlöndum hafa nemendur víða stofnað lítinn rekstur til að bæta eigin hag og aðstöðu til náms og á sama tíma stuðlað að efnahagslegri framþróun í samfélagi sínu. Þannig hafa þau lært að fyrirtæki eru ekki aðeins til bóta fyrir eigendur þeirra heldur samfélagið allt. Í þróuðum samfélögum er takmarkið fremur að nemendur skipuleggi og beri ábyrgð á samfélagslegu verkefni eða góðgerðarstarfsemi. Verkefnin geta bæði verið til góða fyrir fólk sem býr á Íslandi eða annars staðar í heiminum. Það eina sem skiptir máli er að verkefnið sé komið frá nemendum sjálfum, stuðli að bættu samfélagi og betri heimi. Nú þegar hafa börn skipulagt yfir 10.000 slík verkefni um allan heim fyrir tilstilli Aflatún námsefnisins.  

Hér má nálgast skjal þar sem útskýrt er hvernig grunnþættir Aflatún námsefnisins hafa áhrif á þekkingu, viðhorf og leikni nemenda.