Bók & sjónvarpsþættir
« Alþjóðleg fjármálalæsisvika 10.-17. mars | Main | Stofnun um fjármálalæsi gefur alþingismönnum bókina Auði – hagfræði fyrir íslenska þjóð. »
Monday
Jan272014

Menigamoli

Meniga og Stofnun um fjármálalalæsi vinna að eflingu fjármálalæsis Íslendinga. Eitt fyrsta skrefið í átt að betri stjórn á fjármálum er að gera sér grein fyrir samspili tekna sinna og útgjalda. Ein af  vinsælli aðgerðum fólks í Meniga er að bera útgjöld sín saman við aðra, sem búa til dæmis í sama póstnúmeri, eða eru sömu fjölskyldustærðar og svo framvegis.  Þannig er hægt að sjá hvar menn standa í samanburði við aðra í sambærilegri stöðu. Þá sjást hvar tækifæri til betri stjórnunar á útgjöldum liggja, nú eða staðfesting fæst á því að allt sé í stakasta lagi, miðað við aðra.

Í framhaldi af því og til að vekja fólk til umhugsunar um eigin fjármál hafa Stofnun um fjármálalæsi og Meniga tekið höndum saman og ætla á næstunni að veita Íslendingum skemmtilega innsýn í neysluhegðun Íslendinga og gefa fólki kost á að bera sig saman við „Meðal-Jóninn“ með svokölluðum Menigamolum. Menigamolar eru litlir pistlar eða upplýsingar um þróun eða tilhneigingu varðandi fjármál Íslendinga sem skrifaðir eru með það fyrir augum að vekja fólk til umhugsunar um eigin fjármál og ekki væri verra ef einhverjir lesendur litu á þá sem hvatningu til að koma fjármálunum í betra horf.  Stofnun um fjármálalæsi og Meniga er afar annt um persónuvernd og því er aðeins unnið með gögn sem ekki er hægt að rekja til einstaklinga, svokölluð ópersónugreinanleg gögn. Í þessu samhengi ber að árétta að engir nema notendur sjálfir hafa aðgang að persónugreinanlegum upplýsingum.  

 

Menigamoli I - Vefverslun blómstrar

Verslun notenda Meniga við erlendar vefverslanir óx mikið á síðsta ári. Vinsælustu vefverslanirnar eru Amazon, Aliexpress, Asos, ShopUSA, Target, Dealextreme og Ebay.

Sem fyrr trónir Amazon á toppnum með 76% markaðshlutdeild og jukust  viðskipti Meniganotenda við fyrirtækið um 6% milli ára. Hástökkvari ársins er Aliexpress sem rúmlega fimmtíufaldaði sölu sína á milli ára. Árið 2013 var hlutdeild fyrirtækisins í heildarveltu vefverslunar orðin 13% en árið áður var hún langt innan við eitt prósentustig.

Fólk virðist hafa tekið ástfóstri við Aliexpress og nálgaðist verslun við vefverslunina í nóvember að vera um helmingur af verslun Amazon (og fjórðungur í desember). Velta Asos jókst einnig mikið, eða um 74% á milli ára en velta Target og Ebay minnkaði um 15%. Á heildina jukust vefviðskipti Meniganotenda við þessar 7 stærstu vefverslanir um 23% milli ára.

Þá fjölgaði þeim sem versluðu á netinu við eina eða fleiri af sjö vinsælustu erlendu netverslununum um 34% milli ára. Lætur nærri að þriðjungur Meniganotenda hafi keypt vörur á netinu á nýliðnu ári. Þeir sem versluðu við þessar netverslanir gerðu það að meðaltali 5 sinnum árið 2013 og fyrir 5.763 kr. að jafnaði í hvert sinn.  Meðalupphæð hverra viðskipta lækkaði í íslenskum krónum talið um 3%, en þess má geta að gengi íslensku krónunnar styrktist um tæp 7% gagnvart evru og rúm 10% gagnvart dollar á tímabilinu.

Ekki er teljandi munur á verslun höfuðborgarbúa og landsbyggðarfólks á erlendum vefsíðum. Til gamans má geta að þrátt fyrir að um það bil jafn margar konur og karlar versli á netinu og að bæði kynin versli nánast jafn oft (konur 5,1 sinni og karlar 4,9 sinnum), þá versla karlar að jafnaði fyrir hærri uppæðir í hvert sinn.  Að meðaltali versluðu karlar fyrir rúmar 6.400 kr. á meðan konur vörðu rúmum 5.000 kr. í hvert sinn sem verslað var á netinu á nýliðnu ári.

---

Ofangreindar upplýsingar eru fengnar úr Menigahagkerfinu og unnar í samstarfi Meniga og Stofnunar um fjármálalæsi. Meniga hjálpar fólki að halda utan um fjármál heimilisins og eru notendur rúmlega 30.000 talsins. Aldrei er unnið með persónugreinanleg gögn í Meniga hagkerfinu.