Áftur á forsíðu:
 

Sagan

Hugmyndasmiður Aflatún námsefnisins er indversk kona að nafni Jeroo Billimoria. Billimoria starfaði lengi með götubörnum í Mumbai á Indlandi og má rekja tildrög námsefnisins til reynslu hennar af þeim vettvangi. Í störfum sínum aðstoðaði hún börn við að vinna sig út úr fátækt, eiturlyfjaneyslu og vændi og kom meðal annars á fót neyðarlínu sem börnin gátu hringt í og leitað sér aðstoðar hjá allan sólarhringinn.
Billimoria sá að flest þeirra barna sem leituðu sér aðstoðar voru hæfileikarík, hugrökk, klár, nýjungagjörn og skapandi. En þrátt fyrir þetta snéru mörg þeirra aftur til fyrra lífs. Billimoria telur að rót vandans megi rekja til vanþekkingar barnanna á réttindum sínum og skyldum annars vegar og fjármálum hins vegar. Vanþekking á þessum þáttum væri þannig ein meginskýring þess hve erfitt reynist að uppræta efnahagslegan og félagslegan ójöfnuð í heimalandi hennar og víðar.

Billimoria telur því að það sé grundvallaratriði að börn fái viðeigandi fræðslu um réttindi sín og uppbyggjandi leiðsögn um það hvernig þau geta nýtt hæfileika sína og verðmæti til þess að breyta lífi sínu til hins betra. Í kjölfarið stofnaði Billimoria góðgerðarsamtökin Child Savings International sem helgaði sig fræðslu um samfélags- og fjármál fyrir börn með það að markmiði að aðstoða þau úr vítahring fátæktar og óheilbrigðs lífernis. Það var markmið samtakanna að efla sjálfstraust barna, kynna þeim réttindi sín og skyldur og síðast en ekki síst að fræða þau um grundvallaratriði er varða fjármál og sparnað. Billimoria hóf tilraunakennslu á námsefninu í indverskum skólum með góðum árangri. Í kjölfarið leitaði hún eftir samstarfi við fagfólk í öðrum löndum, sannfærð um að sambærilegt námsefni gæti orðið til hagsbóta fyrir börn um allan heim eftir viðeigandi aðlögun efnisins að ólíkum menningarsvæðum.

Árið 2005 voru Aflatoun samtökin formlega stofnuð í Amsterdam í Hollandi. Meðlimir samtakanna eru ýmsar stofnanir, samtök, sjóðir og hreyfingar frá öllum heimshornum. Um mitt ár 2012 voru samtökin starfandi í 81 landi og kennsla var hafin á efninu í flestum þeirra en í undirbúningi í öðrum.