Bók & sjónvarpsþættir
« Bókvitið, askarnir og ísskáparnir | Main | Bensínsala í takt við himintunglin »
Thursday
Jul102014

Kunna 15 ára nemendur að fara með fé?

Helstu niðurstöður fyrstu PISA rannsóknarinnar í fjármálalæsi voru kynntar í höfuðstöðvum efahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, þann 9. júlí 2014.

Áhersla þjóðríkja og alþjóðlegra stofnana á að rannsaka fjármálalæsi hefur stóraukist á undanförnum árum. OECD mælir nú fjármálalæsi fimmtán ára ungmenna í fyrsta sinn sem hluta af PISA könnuninni. Átján þjóðir tóku þátt í fjármálalæsishluta rannsóknarinnar og í henni var þekkingnemendanna  í fjármálalæsi könnuð og sem og geta þeirra til að leysa fjárhagsleg verkefni.

Breki Karlsson, forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi var viðstaddur fundinn: „Meginniðurstöðurnar sýna að meðal OECD landa geta 10% 15 ára nemenda greint flóknar fjármálaafurðir og leyst flókin fjárhagsleg dæmi. Á sama tíma geta 15% nemenda varla tekið einfaldar fjárhagslegar ákvarðanir og þekkja ekki hversdagsleg skjöl eins og reikninga."

Í rannsókninni kemur einnig meðal annars fram að:

- í 17 af 18 löndum sýna drengir og stúlkur svipað mikið fjármálalæsi, en í rannsóknum á fjármálalæsi fullorðinna standa karlar sig gegnumgangandi betur en konur. Meðal nemenda með sambærilega stærðfræðigetu, standa drengir sig betur en stúlkur. Fleiri drengir standa sig betur en stúlkur, en fleiri drengir standa sig verr en stúlkur.

- Mikill munur er á fjármálalæsi milli landa og innan þeirra. Sjanghæ-Kína kemur langbest út, flæmski hluti Belgíu er þar á eftir og svo Eistland, Ástralía og Nýja-Sjáland.

- Félagsleg staða nemenda hefur sterkt spágildi um fjármálalæsi þeirra en landsframleiðsla eða staða þróunarstaða þjóða gerir það ekki nema að afar litlu leiti (16%). Innflytjendur standa sig til dæmis marktækt verr en aðrir.

-Tengsl eru á frammistöðu nemenda í lestri og stærðfræði annarsvegar og fjármálalæsi hins vegar.

„Rannsóknin er ekki síst mikilvæg fyrir okkur Íslendinga, þó að við höfum ekki tekið þátt að þessu sinni, meðal annars í ljósi þess að fjármálalæsi er nú þegar komið inn á aðalnámskrá íslenska grunnskóla og framhaldsskóla. Með því að greina PISA rannsóknina gefst tækifæri að læra af því sem vel er gert í öðrum löndum,“ segir Breki Karlsson.

Breytt samfélag kallar á bætt fjármálalæsi

Á undanförnum árum hafa kröfur til fjármálalæsis almennings aukist til muna. Því veldur meðal annars stóraukið frelsi í viðskiptum samhliða vaxandi samkeppni, aukinni þátttöku almennings í verðbréfaviðskiptum, svo og hröðum tækniframförum.  Jafnframt hefur valfrelsi neytenda stóraukist. Þetta kallar á sífellt meiri ábyrgð einstaklinga á eigin fjármálum. Hrun fjármálamarkaðarins haustið 2008 og afleiðingar þess fyrir almenning beindi ennfremur sjónum að mikilvægi fjármálalæsis.

Afar mikilvægt er að hjálpa ungu fólki að skilja fjármál þar sem komandi kynslóðir eru líklegar til að þurfa að takast á við sífellt flóknari fjármál og fjármálaþjónustur. Þær eru einnig líklegri til að þurfa að bera meiri áhættu á fullorðinsárum en kynslóðirnar á undan, sérstaklega með tilliti til skipulagningar á lífeyristöku á efri árum og heilsutengds kostnaðar.

En mikilvægasta ákvörðun lífsins

Í mörgum löndum stendur fólk á aldrinum 15-18 ára frammi fyrir einni af mikilvægustu ákvörðun lífsins, það er hvort það eigi að fjárfesta í frekari menntun. Launabil milli menntaðra og ómenntaðra hefur aukist í mörgum hagkerfum á sama tíma og kostnaður við framhaldsnám fer ört vaxandi. Tölur frá Bretlandi benda til að helmingur háskólanemenda gerir ráð fyrir að skulda um €18.000 (ISK 2,8 milljónir) að loknu háskólanámi. Barnlaus háskólanemandi á Íslandi sem er á fullum námslánum má gera ráð fyrir að skulda Lánasjóði íslenskra námsmanna rúmar 4 milljónir króna að loknu þriggjaára námi.

Samanburður milli landa mikilvægur

Með samanburði á fjármálalæsi milli landa er mögulegt að sjá hvaða lönd standa sig vel, hvaða námsskrár og landsáætlanir eru árangursríkastar. Þá er hægt að taka mið af því sem best er gert og þróa góðar innlendar áætlanir og taka skref í átt að eflingu fjármálalæsis.

Könnunin náði til Ástralíu, Bandaríkja Norður-Ameríku, Belgíu (flæmska hlutans), Eistlands, Frakklands, Kólumbíu, Króatíu, Ísraels, Ítalíu, Lettlands, Nýja-Sjálands, Póllands, Rússlands, Sjanghæ-Kína, Slóvakíu, Slóveníu, Spánar, og Tékklands. Ísland var ekki meðal þeirra landa sem tóku þátt.

Stofnun um fjármálalæsi

Stofnun um fjármálalæsi er aðili að International Network for Financial Education, alþjóðlegu tengslaneti um fjármálalæsismenntun innan OECD (INFE). INFE er einstakur samráðsvettvangur þar sem hagsmunaaðilar skiptast áskoðunum og reynslu um eflingu fjármálaæsis meðal OECD ríkja.

Stofnun um fjármálalæsi er sjálfstæð stofnun sem beitir sér fyrir bættu fjármálalæsi íslensku þjóðarinnar með rannsóknum og gerð kennsluefnis. Stofnunin hefur gert fjölda rannsókna á fjármálalæsi á Íslandi og tekið þátt í rannsóknum á efninu víða um heim.

Fjármálalæsi er samþætting nauðsynlegrar árvekni, þekkingar, færni, viðhorfa og hegðunar sem þarf til að taka skynsamlegar ákvarðanir í fjármálum, og sem tryggir fjárhagslega velferð einstaklinga.

Niðurstöður rannsóknarinnar má nálgast hér og hér má sjá dæmi um spurningarnar.