Bók & sjónvarpsþættir
Friday
Sep262014

Bókvitið, askarnir og ísskáparnir

Í kjölfar umræðu um fjárlagafrumvarpið sem lagt var fram á dögunum hafa bækur, matur og raftæki verið í deiglunni og sýnist sitt hverjum. Til gamans er því tilvalið að skoða neysluþróun Meniganotenda á þessum tilteknu vöruflokkum.

Bækur
Á árinu 2013 dróst verslun Meniganotenda í hefðbundnum bókabúðum (netverslun er hér undanskilin) saman um 16% frá árinu áður miðað við fast verðlag. Sé litið til notkunar debetkorta sést að heildarvelta þeirra minnkaði um 28% á sama tíma.

Fyrstu átta mánuði þessa árs hefur verslun Meniganotenda dregist saman um 8% borið saman við sama tímabil í fyrra. Sé verslunin í  hins vegar borin saman fyrstu 8 mánuði 2012 er samdrátturinn 23% og samdráttur í notkun debetkorta 39%.

Árið 2012 var hlutfall kreditkorta í veltu bókaverslunar 55% samanborið við 62% árið 2013. Fyrstu átta mánuði þessa árs er hlutfall kreditkorta í bókaverslunum komið uppí 63%.

Það má því með sanni segja að Meniganotendur versli langtum minna í bókaverslunum en áður og þeir kjósi frekar að nota kreditkort í bókaverslun sinni.

Matvara
Á föstu verðlagi jukust matvörukaup Meniganotenda um 8% á árinu 2013 miðað við árið áður. Fyrstu átta mánuði í ár hefur aukningin verið 2%, miðað við sama tíma í fyrra, en um 11% sé miðað við sama tímabil árið 2012.

Raftæki
Á föstu verðlagi jókst verslun Meniganotenda í raftækjaverslunum á árinu 2013 um 10% samanborið við árið á undan. Fyrstu átta mánuði þessa árs hafa raftækjakaup dregist saman um 3% samanborið við sama tíma í fyrra.

Hvert fara krónurnar?
Fyrir hverja krónu sem Meniganotandi ver til kaupa á raftækjum notar hann átta til kaupa á matvöru.  Fyrir hverja krónu sem hann ver til bókakaupa notar hann 36 krónur til matvörukaupa. Þannig eru þessir markaðir afar mismunandi að stærð og erfitt að bera þá saman. En sé litið til þessara þriggja vöruflokka sem hafa verið í umræðunni  sést að á meðan matvöruverslun og raftækjakaup hafa aukist á undanförnum árum, hefur verslun í bókabúðum dregist verulega saman. Þá sést einnig greinilega sú tilhneyging að nota kreditkort í ríkari mæli í bókabúðum á meðan hlutfall debet- og kreditkorta við kaup a matvöru og raftækjum stendur nokkurn veginn í stað. Þetta er áhugaverð þróun, en hvort þetta sé verðugt innlegg í umræðuna um fjárlagafrumvarpið skal ósagt látið.Hvað er fast verðlag?
Til þess að geta borið saman verðlag milli tímabila er tekið tillit til verðbólgu og áhrif hennar máð út.

Aukist til dæmis verslun um 4% á sama tíma og verðbólga er 4%, er ekki um raunverulega aukningu á verslun, þar sem keypt er sama magn af vöru. Varan er bara orðin dýrari. Á föstu verðlagi stendur verslun því í stað. Dragist verslun hins vegar saman um 12% á tilteknum tíma og sé verðbólga sama tímabils 4%, má segja að á föstu verðlagi sé samdráttur verslunar 16%.


Ofangreindar upplýsingar eru fengnar úr Menigahagkerfinu og unnar í samstarfi Meniga og Stofnunar um fjármálalæsi. Meniga hjálpar fólki að halda utan um fjármál heimilisins og eru notendur rúmlega 30.000 talsins. Aldrei er unnið með persónugreinanleg gögn í Meniga hagkerfinu. Þessi grein birtist á  www.meniga.is 19. september 2014.

Thursday
Jul102014

Kunna 15 ára nemendur að fara með fé?

Helstu niðurstöður fyrstu PISA rannsóknarinnar í fjármálalæsi voru kynntar í höfuðstöðvum efahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, þann 9. júlí 2014.

Áhersla þjóðríkja og alþjóðlegra stofnana á að rannsaka fjármálalæsi hefur stóraukist á undanförnum árum. OECD mælir nú fjármálalæsi fimmtán ára ungmenna í fyrsta sinn sem hluta af PISA könnuninni. Átján þjóðir tóku þátt í fjármálalæsishluta rannsóknarinnar og í henni var þekkingnemendanna  í fjármálalæsi könnuð og sem og geta þeirra til að leysa fjárhagsleg verkefni.

Breki Karlsson, forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi var viðstaddur fundinn: „Meginniðurstöðurnar sýna að meðal OECD landa geta 10% 15 ára nemenda greint flóknar fjármálaafurðir og leyst flókin fjárhagsleg dæmi. Á sama tíma geta 15% nemenda varla tekið einfaldar fjárhagslegar ákvarðanir og þekkja ekki hversdagsleg skjöl eins og reikninga."

Í rannsókninni kemur einnig meðal annars fram að:

- í 17 af 18 löndum sýna drengir og stúlkur svipað mikið fjármálalæsi, en í rannsóknum á fjármálalæsi fullorðinna standa karlar sig gegnumgangandi betur en konur. Meðal nemenda með sambærilega stærðfræðigetu, standa drengir sig betur en stúlkur. Fleiri drengir standa sig betur en stúlkur, en fleiri drengir standa sig verr en stúlkur.

- Mikill munur er á fjármálalæsi milli landa og innan þeirra. Sjanghæ-Kína kemur langbest út, flæmski hluti Belgíu er þar á eftir og svo Eistland, Ástralía og Nýja-Sjáland.

- Félagsleg staða nemenda hefur sterkt spágildi um fjármálalæsi þeirra en landsframleiðsla eða staða þróunarstaða þjóða gerir það ekki nema að afar litlu leiti (16%). Innflytjendur standa sig til dæmis marktækt verr en aðrir.

-Tengsl eru á frammistöðu nemenda í lestri og stærðfræði annarsvegar og fjármálalæsi hins vegar.

„Rannsóknin er ekki síst mikilvæg fyrir okkur Íslendinga, þó að við höfum ekki tekið þátt að þessu sinni, meðal annars í ljósi þess að fjármálalæsi er nú þegar komið inn á aðalnámskrá íslenska grunnskóla og framhaldsskóla. Með því að greina PISA rannsóknina gefst tækifæri að læra af því sem vel er gert í öðrum löndum,“ segir Breki Karlsson.

Breytt samfélag kallar á bætt fjármálalæsi

Á undanförnum árum hafa kröfur til fjármálalæsis almennings aukist til muna. Því veldur meðal annars stóraukið frelsi í viðskiptum samhliða vaxandi samkeppni, aukinni þátttöku almennings í verðbréfaviðskiptum, svo og hröðum tækniframförum.  Jafnframt hefur valfrelsi neytenda stóraukist. Þetta kallar á sífellt meiri ábyrgð einstaklinga á eigin fjármálum. Hrun fjármálamarkaðarins haustið 2008 og afleiðingar þess fyrir almenning beindi ennfremur sjónum að mikilvægi fjármálalæsis.

Afar mikilvægt er að hjálpa ungu fólki að skilja fjármál þar sem komandi kynslóðir eru líklegar til að þurfa að takast á við sífellt flóknari fjármál og fjármálaþjónustur. Þær eru einnig líklegri til að þurfa að bera meiri áhættu á fullorðinsárum en kynslóðirnar á undan, sérstaklega með tilliti til skipulagningar á lífeyristöku á efri árum og heilsutengds kostnaðar.

En mikilvægasta ákvörðun lífsins

Í mörgum löndum stendur fólk á aldrinum 15-18 ára frammi fyrir einni af mikilvægustu ákvörðun lífsins, það er hvort það eigi að fjárfesta í frekari menntun. Launabil milli menntaðra og ómenntaðra hefur aukist í mörgum hagkerfum á sama tíma og kostnaður við framhaldsnám fer ört vaxandi. Tölur frá Bretlandi benda til að helmingur háskólanemenda gerir ráð fyrir að skulda um €18.000 (ISK 2,8 milljónir) að loknu háskólanámi. Barnlaus háskólanemandi á Íslandi sem er á fullum námslánum má gera ráð fyrir að skulda Lánasjóði íslenskra námsmanna rúmar 4 milljónir króna að loknu þriggjaára námi.

Samanburður milli landa mikilvægur

Með samanburði á fjármálalæsi milli landa er mögulegt að sjá hvaða lönd standa sig vel, hvaða námsskrár og landsáætlanir eru árangursríkastar. Þá er hægt að taka mið af því sem best er gert og þróa góðar innlendar áætlanir og taka skref í átt að eflingu fjármálalæsis.

Könnunin náði til Ástralíu, Bandaríkja Norður-Ameríku, Belgíu (flæmska hlutans), Eistlands, Frakklands, Kólumbíu, Króatíu, Ísraels, Ítalíu, Lettlands, Nýja-Sjálands, Póllands, Rússlands, Sjanghæ-Kína, Slóvakíu, Slóveníu, Spánar, og Tékklands. Ísland var ekki meðal þeirra landa sem tóku þátt.

Stofnun um fjármálalæsi

Stofnun um fjármálalæsi er aðili að International Network for Financial Education, alþjóðlegu tengslaneti um fjármálalæsismenntun innan OECD (INFE). INFE er einstakur samráðsvettvangur þar sem hagsmunaaðilar skiptast áskoðunum og reynslu um eflingu fjármálaæsis meðal OECD ríkja.

Stofnun um fjármálalæsi er sjálfstæð stofnun sem beitir sér fyrir bættu fjármálalæsi íslensku þjóðarinnar með rannsóknum og gerð kennsluefnis. Stofnunin hefur gert fjölda rannsókna á fjármálalæsi á Íslandi og tekið þátt í rannsóknum á efninu víða um heim.

Fjármálalæsi er samþætting nauðsynlegrar árvekni, þekkingar, færni, viðhorfa og hegðunar sem þarf til að taka skynsamlegar ákvarðanir í fjármálum, og sem tryggir fjárhagslega velferð einstaklinga.

Niðurstöður rannsóknarinnar má nálgast hér og hér má sjá dæmi um spurningarnar.

Wednesday
Jul022014

Bensínsala í takt við himintunglin

Meniganotendur keyptu vörur og þjónustu á bensínstöðvum fyrir 11% lægri upphæð fyrstu þrjá mánuði ársins, samanborið við sama tímabil í fyrra en þá voru páskarnir á fyrsta ársfjórðungi.

Verslun minnkar meira en sem nemur lækkun á bensínverði

Að teknu tilliti til verðlækkana á bensíni, sem nam 7% samkvæmt Hagstofunni, dróst raunvelta Meniganotenda saman um u.þ.b. 4% á tímabilinu. Meðalkaup drógust saman sem nemur lækkun á bensínverði og því er ljóst að Meniganotendur keyptu að öllum líkindum jafn mikið af vörum í hverri ferð en greiddu minna fyrir þær. Þá versluðu notendur Meniga sjaldnar við bensínstöðvarnar samanborið við sama tímabil í fyrra.

Meiri samdráttur í sjálfsafgreiðslu

Ofangreindar tölur eiga við um öll kaup á bensínstöðvum, hvort sem er bensín eða aðrar vörur. Þar sem bensínverslun er langstærsti þáttur í verslun á bensínstöðvum landsins má með nokkurri vissu ætla að verslun Meniganotenda á bensínstöðvun endurspegli kaup landsmanna á bensíni. Salan dróst saman um 12,9% á sjálfsafgreiðslustöðvum (en þær selja aðeins bensín) og 9,4% á stöðvum með fullri þjónustu.

Velta úrtaksins í milljónum króna á bensínstöðvum landsins (öll sala - einnig smávara og skyndibiti) og breyting á milli ára. Júlí 2013 var mikill ferðamánuður og var töluvert mikil hækkun í samanburði við sama mánuð árið áður, eða um 10%. Á grafinu sést einnig mikill samdráttur á fyrsta fjórðungi, að apríl undanskildum, en þá var einmitt Páskahátíðin, eins og áður hefur komi fram.

Páskasalan hefur mikil áhrif

Hluta skýringarinnar er án efa að finna í tímatalinu sem við notum, því páskar féllu í lok mars í fyrra en eru núna í apríl. Páskar fylgja tungltímatali og er páskadagur ávalt fyrsta sunnudag eftir fyrsta fulla tungl eftir jafndægur á vori. Þannig féllu þeir á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en eru á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Þar sem fólk er töluvert á ferli á bílum sínum um páska má segja að gangur himintunglanna ráði nokkru um bensínsölu.

Ofangreindar upplýsingar eru fengnar úr Menigahagkerfinu og unnar í samstarfi Meniga og Stofnunar um fjármálalæsi. Meniga hjálpar fólki að halda utan um fjármál heimilisins og eru notendur rúmlega 30.000 talsins. Aldrei er unnið með persónugreinanleg gögn í Meniga hagkerfinu.
Friday
Mar072014

Alþjóðleg fjármálalæsisvika 10.-17. mars

Fjölbreytt dagskrá í heila viku vekur börn og ungmenni til vitundar um fjármál

Stofnun um fjármálalæsi fer fyrir hópi stofnana og fyrirtækja sem standa fyrir ýmsum viðburðum í annarri viku marsmánaðar til að fagna alþjóðlegri fjármálalæsisviku 2014. Þetta er í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin á Íslandi en alls taka þátt yfir 100 lönd í öllum heimsálfum. Dagskrá vikunnar er fjölbreytt og skemmtileg.

Nýr fjármálalæsisleikur fyrir efstu bekki grunnskóla verður kynntur til sögunnar, leiðsögn um sýningu í Seðlabankanum og fjármálafyrirlestur Jóns Jónssonar er meðal þess sem börnum býðst á dagskrá fjármálalæsisvikunnar. Dagskráin fylgir hér fyrir neðan og er einnig aðgengileg á fésbókarsíðu vikunnar.

Hleypt verður af stokkunum nýjum fjármálalæsisleik fyrir unglinga. Leiknum, sem kallast Óskalistinn, er ætlað að auka áhuga nemenda á eigin fjármálum og gengur út á að fá þátttakendur til þess að hugsa til framtíðar og ráðstafa framtíðartekjum. Leikurinn er hannaður af nemendum í MPM námi í Háskólanum í Reykjavík og stendur öllum grunnskólum til boða að nýta sér leikinn í fjármálalæsiskennslu.

Alþjóðleg fjármálalæsisvika á Íslandi er hluti af alþjóðlegri vitundarvakningu sem ætlað er að vekja athygli á mikilvægi fjármálalæsismenntunar og stuðla að viðhorfsbreytingu þegar kemur að fjármálum. Hollenska góðgerðarhreyfingin Child and Youth Finance International stendur að átakinu á alþjóðavísu. Hreyfingin vinnur að eflingu fjármálalæsis og aðgengi barna og ungmenna að öruggri og barnvænni fjármálaþjónustu um heim allan. Hreyfingin nýtur stuðnings margra framámanna og stofnana á heimsvísu, þar á meðal aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Ban-Ki Moon.

Í dag hefur innan við 1% allra barna í heiminum aðgang að fjármálalæsismenntun eða fjármálaþjónustu við sitt hæfi. Skortur á fjármálalæsi veldur því að ungt fólk lendir í vanda vegna skuldsetningar, sem hefur neikvæðar afleiðingar á þroska þess og velferð. Markmið fjármálalæsisvikunnar er að gera börnum og ungmennum grein fyrir mikilvægi fjárhagslegra réttinda sinna.

Að alþjóðlegri fjármálalæsisviku standa Arion banki, Fjármálaeftirlitið, Fjármálaráðuneytið, hópur nemenda í MPM námi í Háskólanum í Reykjavík, Meniga, NASDAQ OMX kauphöllin, Neytendastofa, Seðlabanki Íslands, Stofnun um fjármálalæsi, Umboðsmaður skuldara og Viðskiptaráð.

Dagskrá:
Mánudagur
9:30 Nemendur í 10. bekk Salaskóla hringja inn vikuna í Kauphöllinni.

Þriðjudagur
14:00- 16:00. Leiðsögn um myntsafn Seðlabanka og Þjóðminjasafns, Kalkofnsvegi 1 (við Arnarhól). Myntsafnið er annars opið frá 13:30 til 15:30.  Símanúmer Seðlabankans er 569 9600.

Miðvikudagur
Óskalistanum, nýjum fjármálalæsisleik, hleypt af stokkunum í Salaskóla,
14:00- 16:00. Leiðsögn um myntsafn Seðlabanka og Þjóðminjasafns, Kalkofnsvegi 1 (við Arnarhól). Myntsafnið er annars opið frá 13:30 til 15:30.  Símanúmer Seðlabankans er 569 9600.

19:00 Fyrirlestur Jóns Jónssonar í Arionbanka fyrir ungt fólk, 12-16 ára.

Fimmtudagur
14:00- 16:00. Leiðsögn um myntsafn Seðlabanka og Þjóðminjasafns, Kalkofnsvegi 1 (við Arnarhól). Myntsafnið er annars opið frá 13:30 til 15:30.  Símanúmer Seðlabankans er 569 9600.

15:00-17:00 Neytendastofa verður í Smáralind, dreifir bæklingum  um neytendalán og svarar spurningum.

Föstudagur
Óskalistinn, nýr fjármálalæsisleikur, leikinn í Lindaskóla .
12:00-14:00 Neytendastofa verður í Kringlunni, dreifir bæklingum  um neytendalán og svarar spurningum.

Monday
Jan272014

Menigamoli

Meniga og Stofnun um fjármálalalæsi vinna að eflingu fjármálalæsis Íslendinga. Eitt fyrsta skrefið í átt að betri stjórn á fjármálum er að gera sér grein fyrir samspili tekna sinna og útgjalda. Ein af  vinsælli aðgerðum fólks í Meniga er að bera útgjöld sín saman við aðra, sem búa til dæmis í sama póstnúmeri, eða eru sömu fjölskyldustærðar og svo framvegis.  Þannig er hægt að sjá hvar menn standa í samanburði við aðra í sambærilegri stöðu. Þá sjást hvar tækifæri til betri stjórnunar á útgjöldum liggja, nú eða staðfesting fæst á því að allt sé í stakasta lagi, miðað við aðra.

Í framhaldi af því og til að vekja fólk til umhugsunar um eigin fjármál hafa Stofnun um fjármálalæsi og Meniga tekið höndum saman og ætla á næstunni að veita Íslendingum skemmtilega innsýn í neysluhegðun Íslendinga og gefa fólki kost á að bera sig saman við „Meðal-Jóninn“ með svokölluðum Menigamolum. Menigamolar eru litlir pistlar eða upplýsingar um þróun eða tilhneigingu varðandi fjármál Íslendinga sem skrifaðir eru með það fyrir augum að vekja fólk til umhugsunar um eigin fjármál og ekki væri verra ef einhverjir lesendur litu á þá sem hvatningu til að koma fjármálunum í betra horf.  Stofnun um fjármálalæsi og Meniga er afar annt um persónuvernd og því er aðeins unnið með gögn sem ekki er hægt að rekja til einstaklinga, svokölluð ópersónugreinanleg gögn. Í þessu samhengi ber að árétta að engir nema notendur sjálfir hafa aðgang að persónugreinanlegum upplýsingum.  

 

Menigamoli I - Vefverslun blómstrar

Verslun notenda Meniga við erlendar vefverslanir óx mikið á síðsta ári. Vinsælustu vefverslanirnar eru Amazon, Aliexpress, Asos, ShopUSA, Target, Dealextreme og Ebay.

Sem fyrr trónir Amazon á toppnum með 76% markaðshlutdeild og jukust  viðskipti Meniganotenda við fyrirtækið um 6% milli ára. Hástökkvari ársins er Aliexpress sem rúmlega fimmtíufaldaði sölu sína á milli ára. Árið 2013 var hlutdeild fyrirtækisins í heildarveltu vefverslunar orðin 13% en árið áður var hún langt innan við eitt prósentustig.

Fólk virðist hafa tekið ástfóstri við Aliexpress og nálgaðist verslun við vefverslunina í nóvember að vera um helmingur af verslun Amazon (og fjórðungur í desember). Velta Asos jókst einnig mikið, eða um 74% á milli ára en velta Target og Ebay minnkaði um 15%. Á heildina jukust vefviðskipti Meniganotenda við þessar 7 stærstu vefverslanir um 23% milli ára.

Þá fjölgaði þeim sem versluðu á netinu við eina eða fleiri af sjö vinsælustu erlendu netverslununum um 34% milli ára. Lætur nærri að þriðjungur Meniganotenda hafi keypt vörur á netinu á nýliðnu ári. Þeir sem versluðu við þessar netverslanir gerðu það að meðaltali 5 sinnum árið 2013 og fyrir 5.763 kr. að jafnaði í hvert sinn.  Meðalupphæð hverra viðskipta lækkaði í íslenskum krónum talið um 3%, en þess má geta að gengi íslensku krónunnar styrktist um tæp 7% gagnvart evru og rúm 10% gagnvart dollar á tímabilinu.

Ekki er teljandi munur á verslun höfuðborgarbúa og landsbyggðarfólks á erlendum vefsíðum. Til gamans má geta að þrátt fyrir að um það bil jafn margar konur og karlar versli á netinu og að bæði kynin versli nánast jafn oft (konur 5,1 sinni og karlar 4,9 sinnum), þá versla karlar að jafnaði fyrir hærri uppæðir í hvert sinn.  Að meðaltali versluðu karlar fyrir rúmar 6.400 kr. á meðan konur vörðu rúmum 5.000 kr. í hvert sinn sem verslað var á netinu á nýliðnu ári.

---

Ofangreindar upplýsingar eru fengnar úr Menigahagkerfinu og unnar í samstarfi Meniga og Stofnunar um fjármálalæsi. Meniga hjálpar fólki að halda utan um fjármál heimilisins og eru notendur rúmlega 30.000 talsins. Aldrei er unnið með persónugreinanleg gögn í Meniga hagkerfinu.