Fé framundan

Reglan um 72

 

Reglan um 72 er mikilvæg, ofureinföld þumalputtaregla til þess að reikna út hvernig peningar vinna og það tekur einungis um tvær mínútur að ná tökum á henni.

Segja má að sá sem lánar peninga sé að leigja þá út. Vextir eru því nokkurs konar leigugjald sem lántakandi greiðir lánveitanda fyrir afnot af peningunum hans sem hann myndi að öðrum kosti nota í eitthvað annað. Þegar þú leigir út íbúð í þinni eigu færðu leigugjald; þegar þú lánar peninga (til dæmis með því að leggja þá inn á bankareikning) færðu leigugjald fyrir í formi vaxta. „...Svo færðu vexti og vaxtavexti og vexti líka á þá,“ eins og segir í gamalli bankaauglýsingu.

Albert Einstein ku hafa sagt að vaxtavextir væru „mikilvægasta stærðfræðiuppfinning allra tíma.“ Enda er undramáttur vaxtavaxta mikill. 10% vextir af 1.000 kr. eru 100 krónur á fyrsta tímabili útreiknings, eða samtals 1.100 kr. Næst eru reiknaðir 10% vextir af 1.100 kr. sem eru 110 kr. og þeir lagðir við höfuðstólinn, og svo koll af kolli. Upphæð sem ber 10% vexti er þannig rúm 7 ár að tvöfaldast.

Svona er reglan í hnotskurn:
Til að reikna árafjöldann sem tekur upphæð að tvöfaldast skaltu deila 72 með vaxtaprósentunni: 72/vextir = árafjöldi til tvöföldunar

Dæmi:
Yfirdráttarlán bera um 15% vexti: 72 / 15 = 4,8. Upphæð yfirdráttarláns tvöfaldast á tæpum 5 árum sé hún ekki greidd niður.

Lítum nú á hvað gerist í hvert sinn sem upphæð tvöfaldast:
1 kr. ... 2 kr. ... 4 kr. ... 8 kr. ... 16 kr. ... 32 kr. ... 64 kr. ... 128 kr. ... 256 kr.

Þess vegna er svo mikilvægt að peningar sem þú átt tvöfaldist sem oftast og skuldir þína geri það sem sjaldnast. En hversu oft mun upphæð tvöfaldast á tilteknum tíma? Til að komast að því skaltu deila útkomunni í dæminu að ofan með árafjöldanum.

Dæmi:
Hversu oft tvöfaldast yfirdráttarlán á 20 ára tímabili?
20 / 4,8 = 4,2

Yfirdráttarlán tvöfaldast rúmlega 4 sinnum á 20 ára tímabili sé það ekki greitt niður.
100.000 kr. yfirdráttarlán verður því rúmar 1.600.000 kr.

Núna hefurðu lært undirstöðuatriði reglunnar um 72. Nýttu þér hana til að láta fjárfestingu tvöfaldast aðeins oftar yfir langan tíma og eftirlaunasjóðurinn gæti orðið margfalt stærri. Hugsaðu líka um hversu hratt skuldir sem bera háa vexti vaxa. Það getur skipt sköpum við lántökur og fjárfestingu að gera sér grein fyrir tvöföldunartíma fjár.


Greinin birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 26. apríl, 2010