Fé framundan

Fjármál eru ekki feimnismál
Efldu þekkingu fjölskyldunnar
á fjármálum með auratali


Fjármálalæsi er getan til að lesa, greina og fjalla um þá þætti sem hafa áhrif á efnahagslega velferð einstaklinga. Það snýst ekki um að verða ríkur heldur sníða sér stakk eftir vexti.

Það þarf ekki að koma á óvart að samkvæmt rannsóknum er staða fjármálalæsis Íslendinga ekki góð. Börnum er kennt að lesa, skrifa og reikna í skólum, en enn sem komið er fjármálalæsi nánast einvörðungu á herðum foreldra. Samkvæmt rannsóknum tala um tveir þriðju hlutar foreldra við börnin sín um kynlíf en einungis þriðjungur uppfræðir þau um fjármál. Því má segja að fjármál séu orðin meira feimnismál en kynlíf.

Nú þegar haustar að er góð ástæða að setjast niður með fjölskyldunni og taka upp nýja fjölskylduhefð: Auratal. Hugmyndin er að fjölskyldan safnist reglulega saman og tali um hvernig peninga er aflað, þeim eytt og þeir sparaðir. Viðfangsefni auratals er undir þér komið en hugmyndin er alltaf sú sama: að veita börnunum þínum ómetanlega kennslu í fjármálalæsi.

Við viljum öll börnunum okkar bara það besta, hvort sem það snýr að heilsu eða menntun, og að efla færni þeirra í fjármálum er hluti af því. Þegar kemur að kennslu í fjármálalæsi eru foreldrar oft bestu kennararnir. Það á að vera gaman, alvöru, reglulegt, sveigjanlegt og þú þarft að vera fyrirmynd.

Gaman
Auratalið á að vera skemmtileg samverustund allrar fjölskyldunnar og alls ekki of langt. Tengja má auratalið við eitthvað sem börnin hlakka til svo sem pizzu-kvöld. Hægt er að ná að fara yfir víðan völl á hálftíma án þess að neinn verði of þreyttur.

Alvöru
Tengdu auratalið við eitthvað sem er fjölskyldunni mikilvægt. Ef fjölskyldan er til dæmis að hugsa um að kaup sjónvarp eða safna fyrir ferðalagi, mætti nota auratalið til að ræða málið og fá innlegg frá öllum fjölskyldumeðlimum. Ef fjárhagserfiðleikar steðja að er rétt að tala við börnin um stöðu mála en gæta þess þó að valda þeim ekki óþarfa áhyggjum.

Reglulegt
Það er auðveldara fyrir alla ef auratal fjölskyldunnar er alltaf á sama tíma. Ennfremur er gott ef börnin vita hvers er von. Til dæmis mætti sammælast um einfalda dagskrá: 1) útborgun vasapeninga, 2) spurningar eða athugasemd um fjármál, 3) aðalumræðuefni vikunnar rætt (ferðalagið eða sjónvarpið), 4) fundi slitið með því að spila fjármálatengdan leik, svo sem Matador.

Sveigjanlegt
Börn á mismunandi aldri hafa mismunandi þarfir og hugmyndir um fjármál. T.d. gæti 10 ára barn velt fyrir sér hvað þúsundkall séu margir hundraðkallar, á meðan táningur hefði áhuga á að pæla í kostnaði við bílpróf. Gefðu hverju barni tíma til að tjá sig um fjármál og fáðu alla fjölskyldumeðlimi til að hlusta.

Fyrirmynd
Notaðu auratalið til að sýna börnunum þínum að þú hugsir mikilvægar fjármálalegar ákvarðanir í gegn, að þú borgir reikninga á réttum tíma og að þú farir vel með peninga. Við foreldrar hikum stundum við að kenna börnunum okkar um fjármál þar sem við erum langt frá því að vera fullkomin sjálf. Líttu á þig sem þjálfara, en ekki sérfræðing og bentu börnum þínum á hvað þú gerir rétt og hvar þú mættir bæta þig. Leyfðu börnunum að læra af bæði mistökum þínum og sigrum.


Hafðu hvert auratal mismunandi. Eftirfarandi eru hugmyndir sem þú gætir nýtt þér:

Sparnaðarmarkmið
Setjið ykkur sem fjölskylda sameiginlegt sparnaðarmarkmið. Séu börnin ung, er gott að spara fyrir tiltölulega ódýrum hlutum svo sem tússlitum þar sem athyglisspan ungra barna er lítið. Gott er að gera markmiðið áþreifanlegt, til dæmis með því að að teikna mynd af tússlitum og líma hana á krukku sem notuð er sem sparibaukur. Þú gætir gefið barninu nokkra tíkalla á til að setja í krukkuna,eða leyfa því að vinna sér þá inn með hæfilegum húsverkum. Með eldri börnum mætti velja dýrari hluti svo sem geislaspilara eða iPod. Hjálpaðu þeim að leita leiða til að afla tekna fyrir kaupunum. Sumir foreldrar efla sparnaðarviðleitni barna sinna með því að jafna sparnað þeirra. Fyrir hverja krónu sem barnið sparar geta foreldrar lagt samsvarandi upphæð á móti. Ræðið framgang sparnaðarins í auratalinu.

Langanir og þarfir
Hjálpaðu barninu þínu að skilja milli þess að eyða peningum í það sem þau langar í og að eyða peningum í það sem þau þurfa á að halda. Þið getið í sameiningu útbúið myndir af hlutunum og sett í mismunandi flokka: Úlpa => þörf og iPod => löngun.

Bankar
Leyfðu börnunum þínum að taka þátt í að borga reikningana þína. Ef þú ert með greiðsluþjónustu eða heimabanka sýndu þeim hvernig þau virka. Sýndu þeim greiðslukortayfirlitið og farðu yfir með þeim hvað hlutirnir kosta.

Hagkvæmnikeppni
Fáðu fjölskyldumeðlimi til að útbúa lista yfir eins margar leiðir til að draga úr eyðslu og hægt er. Veldu sigurvegara og verðlaunaðu hann. Fáið fjölskyldumeðlimi til að velja bestu sparnaðarleiðina og ákveðið í sameiningu hvernig þið ætlið að framkvæma hana.

Kolaportið
Notaðu auratalið til að skipuleggja sölu í Kolaportinu. Veljið þá hluti sem börnin þurfa ekki lengur og verðleggið þá. Leyfið börnunum að taka þátt í sölustarfseminni í Kolaportinu og leyfið þeim að ákveða hvernig ráðstafa eigi söluandvirðinu.

Spilaðu fjármálatengda leiki
Matador og Útvegsspilið eru gömul uppáhaldsspil .

Styddu gott málefni
Notaðu auratalið til að tala um góð málefni og notið hugarflugið til að finna mismunandi málefni til að styrkja hvort sem er með því að gefa peninga, vinnu eða annað. Veljið saman eitt málefni til að styrkja. Leyfið börnunum að fylgjast með því þegar málefnið er styrkt og síðan einnig með framvindu málefnisins.

Fjárgöngur
Prófaðu að halda auratal utandyra. Farið í gönguferð um hverfið og fáið börnin til að benda á alla hluti sem þau sjá og kosta peninga og mögulegar leiðir til að afla tekna. Ekki gleyma að tala um alla dýrmætu hlutina sem ekki kosta neitt, svo sem hlátur, sólskin, og þá sem verða ekki metnir, svo sem góð heilsa, samvera og svo framvegis.