Fé framundan

8 atriði sem þú ættir að vita um fjármálaráðgjafann þinn

 

Það geta legið margar ástæður fyrir því að leita til fjármálaráðgjafa. Það getur verið til þess að koma skikki á fjármálin, vegna íbúðarkaupa, út af fjárfestingartækifærum eða eftir að hafa hreppt stóra vinninginn.

Hver sem ástæðan kann að vera, er nauðsynlegt að vanda valið. Góð og fagleg fjármálaráðgjöf getur reynst gæfuríkt skref í átt að fjárhagslegu öryggi, en slæm ráðgjöf dýrkeypt.

Mikilvægt er að vera viss í sinni sök, áður en ákvörðun er tekin um val á fjármálaráðgjafa. Gott er að hafa í huga að vera óhrædd/ur að spyrja krefjandi spurninga áður en slík ákvörðun er tekin. Á endanum er það enginn annar en þú sem berð ábyrgð á þínum fjármálum.

Hér eru nokkrar spurningar sem leggja má fyrir mögulega fjármálaráðgjafa til þess að átta sig betur á því fyrir hvað hann stendur og hverjar eru forsendur ráðgjafarinnar sem hann veitir. Vitaskuld er þetta ekki tæmandi listi:

1. Hvaða reynslu hefur þú af fjármálaráðgjöf til einstaklinga?

Grennslastu fyrir um hversu lengi ráðgjafinn hefur verið í starfi, við hvað og hvar. Óskaðu eftir því að hann lýsi fyrri störfum sínum og hvernig þau nýtast við ráðgjafarstarfið. Hefur ráðgjafinn reynslu af ráðgjöf er varðar fjármál einstaklinga?

2. Hvaða menntun hefur þú?

Starfsheiti fjármálaráðgjafa er ekki lögverndað á Íslandi og því getur hver sem er kallað sig fjármálaráðgjafa.

Samkvæmt 53. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki skulu starfsmenn fjármálafyrirtækis, sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með fjármálagerninga (verðbréfaviðviðskipti), hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum. Lögin gilda því ekki um fjármálaráðgjöf almennt.

Mikilvægt er að ganga úr skugga um að ráðgjafinn sé sérfræðingur í því málefni sem til stendur að fá ráðgjöf um. Hvaða menntun hefur hann sem gerir honum kleift að veita fjármálaráðgjöf? Þetta gildir um öll svið fjármálaráðgjafar, hvort sem hún lýtur að tryggingum, fjárfestingum, skattamálum, samningum við lánveitendur eða lífeyrismálum.

3. Hvers konar ráðgjöf veitir þú og er hún á mannamáli?

Hvers konar viðskiptavinum vinnur ráðgjafinn yfirleitt með og hvernig setur hann fram ráðgjöfina? Sumir ráðgjafar vinna að heildarlausn sem spannar allar fjármálaþarfir einstaklinga, en aðrir einbeita sér að einstökum málefnum. Mikilvægt er að ráðgjafinn geti orðað hugsun sína á máli sem þú skilur. Ef hann getur ekki skýrt eitthvað út, þá er líklegra en ekki að hann skilji það ekki sjálfur.

4. Hvernig greiði ég fyrir ráðgjöfina?

Það þarf að liggja fyrir frá upphafi hvernig greitt er fyrir ráðgjöfina. Sumir ráðgjafar rukka fyrir hverja klukkustund, aðrir taka mánaðarlega þóknun. Hversu háa upphæð má búast við að þurfa að greiða? Er sama ráðgjöf veitt í bönkum, sparisjóðum eða Ráðgjafaþjónustu um fjármál heimilanna án endurgjalds?

Ef ráðgjöfin er „ókeypis”, hver greiðir þá fyrir ráðgjöfina? Skapar það hættu á hagsmunaárekstrum, fær hann til dæmis greitt fyrir að benda á fjármálatengdar „vörur” eða fyrirtæki?

5. Hagnast einhver annar en ég á ráðgjöfinni?

Sumir ráðgjafar tengjast á beinan eða óbeinan hátt fjármálafyrirtækjum og geta þessi tengsl komið í veg fyrir að ráðgjöfin sé hlutlaus. Er ástæða til að draga fram bein eða óbein hagsmunatengsl vegna ráðgjafarinnar? Tengist ráðgjafinn eða fyrirtækið sem hann starfar hjá einstaklingum eða fyrirtækjum sem gætu hagnast á ráðgjöfinni.

6. Get ég fengið meðmæli?

Stendur til boða að spyrja þrjá fyrrum eða núverandi viðskiptavini ráðgjafans um reynslu þeirra af honum?

7. Hvernig orð fer af þér?

Hefur ráðgjafinn fengið dóm fyrir brot sem tengjast fjármálum eða sýnt annars konar siðferðisbrest? Starfar ráðgjafinn eftir siðareglum eða öðrum reglum?

8. Get ég fengið þetta skriflegt?

Það er sjálfsagt að fá skriflega yfirlýsingu um ofangreint frá fjármálaráðgjafanum. Þegar öllu er á botninn hvolft er hann að fjalla um og veita persónulega ráðgjöf um fjárhagslegt öryggi. Gera þarf skriflegan samning um ráðgjöfina.

Að lokum:

Mundu að þú ræður hvort þú ferð eftir þeirri fjármálaráðgjöf sem þú færð. Ekki láta leiða þig út í eitthvað sem þú ekki skilur. Það er í lagi að efast og fá álit annarra en ráðgjafa þíns. Mundu að á endanum berð þú ábyrgð á fjármálalegum ákvörðunum þínum og tekur afleiðingunum, ekki ráðgjafinn.